Ekkert lát virðist vera á dauðsföllum á Ítalíu tengdum kórónuveirunni. Samkvæmt nýjustu tölum frá heilbrigðisyfirvöldum hafa 793 manns látist af völdum veirunnar síðasta sólarhringinn.
Heildarfjöldi dauðsfalla vegna veirunnar í landinu er nú 4.825. Aukning dauðsfalla síðasta sólarhringinn var því 19,6 prósent að því er fram kemur í frétt Reuters.
Ekki hafa fleiri dauðsföll vegna veirunnar verið skráð í landinu á einum sólarhring frá því að faraldurinn hófst þar fyrir um mánuði.
Fréttir bárust frá því síðastliðinn fimmtudag að fleiri hafi látist af völdum veirunnar á Ítalíu en í Kína þar sem faraldurinn kom upp undir lok síðasta árs.
Alls hafa nú 53.578 manns greinst með kórónuveirusmit á Ítalíu, en fjöldinn var 47.021 í gær.
Ástandið er verst í Langbarðalandi (Lombardy) þar sem dauðsföllin vegna veirunnar telja nú 3.095 og smittilfellin 25.515.
Af þeim sem hafa greint með smit á Ítalíu hafa tæplega 6.072 manns náð fullum bata, en sú tala stóð í 5.119 í gær. 2.857 manns eru nú á gjörgæslu samanborið við 2.655 í gær.