Örlög Norwegian voru ákveðin í gær en hluthafar greiddu atkvæði í gærkvöldi um það hvort björgunarpakki sem flugfélagið lagði til yrði samþykktur. Hluthafar áttu fund klukkan 16:00 að staðartíma í gær til að kjósa um pakkann en það liggur fyrir að hlutafé félagsins verði uppurið um miðjan maí eins og greint er frá á vef fréttastofu Reuters.
Flugfélagið sendi út nýtt, og loka, tilboð klukkan 13:59 í gær og gaf hluthöfum frest til 21:00 til að meta stöðuna. Síðan þá hefur ekkert heyrst frá félaginu um niðurstöðu málsins.
„Við höfum engar upplýsingar til að miðla að svo stöddu. Við munum gefa út tilkynningu til kauphallarinnar í Ósló þegar við getum,“ sagði talskona Norwegian.
Til að þrauka þarf félagið að breyta 1,2 milljörðum dollara, sem samsvarar um 175,2 milljörðum íslenskra króna, af skuldum í hlutafé auk þess sem stærstur eignarhluti í félaginu mun vera í höndum skuldabréfahafa og leigusala, verði aðgerðapakkinn samþykktur af hluthöfum og skuldareigendum.
Verði pakkinn samþykktur þurfa leigusalar að lýsa yfir stuðningi við hann fyrir sunnudag og skuldabréfahafar þurfa að samþykkja tillöguna á fundi á mánudag. Verði aðgerðapakkinn samþykktur mun norska ríkið veita félaginu 260 milljóna dollara lán, sem samsvarar tæpum 38 milljörðum króna. Það veltur þó á því hvort hlutafé félagsins eykst.
Flugfélagið varaði við því þann 27. apríl síðastliðinn að færi félagið í gjaldþrot myndu flestir kröfuhafar fá lítið úr þrotabúinu. Þá greindu einhverjir hluthafar frá því fyrir fundinn í gær að þeir myndu styðja tillöguna.
Flugfélagið hefur á síðustu árum orðið þriðja stærsta lággjaldaflugfélag í Evrópu og stærsta erlenda flugfélagið sem flýgur til New York og annarra stórborga í Bandaríkjunum en það hefur einnig safnað upp skuldum upp á nærri 8 milljarða dollara, eða um 1.168 milljarða íslenskra króna.
Þá hafði flugfélagið gert ráðstafanir til að skera niður útgjöld og fækka ferðum áður en kórónuveirufaraldurinn braust út, í von um að skila hagnaði í ár í fyrsta skipti í fjögur ár.