Þrátt fyrir kórónuveiruna, og í flestum löndum er spilað án áhorfenda, verða áhorfendur á mótinu sem hefst í næstu viku. Það fer eftir hversu stórum höllum liðin spila í, hversu mörgum er hleypt inn, en á leikjum Dana geta verið til að mynda þrjú þúsund áhorfendur.
Mikkel Hansen virðist þó ætla að spila á mótinu í næstu viku en fleiri leikmenn liðsins hafa tekið undir gagnrýni Hansen. Þar á meðal Henrik Møllgaard sem botnar ekkert í þessari ákvörðun.
„Veiran er að fara í allar áttir þegar maður sér hvað er að gerast í heiminum og þá finnst mér það vitlaust að þegar við erum lokaðir inn í búbblunni og megum ekki fara út - að á sama tíma megi koma áhorfendur á leikina,“ sagði Møllgaard og hélt áfram.
„Auðvitað er þetta gert til þess að vernda okkur, að loka okkur inni, og það er fínt. En það er fáránlegt að loka okkur frá öllu öðru og svo hleypa fólki inn í hallirnar bara út af því svo að það verði smá stemning og egypska landsliðið fái stuðning. Þetta er svo maður segi sem minnst; heimskulegt.“
„Það er skrýtið að við erum lokaðir inn í búbblunni og megum ekki fara í sturtu eftir leikina og það eru allar mögulegar reglur. Við eigum að drífa okkur aftur á hótelið en það sitja þrjú þúsund áhorfendur í höllinni. Af hverju getum við þá ekki bara farið í sturtu í höllinni? Þetta gengur ekki upp.“
Morten Olsen er einn af leikmönnum danska liðsins sem hefur fengið kórónuveiruna og er því ekki stressaður að næla sér í veiruna, á nýjan leik í Egyptalandi, en hann skilur vel samherja sína.
„Persónulega finnst mér þetta týpískt IHF. Mér finnst yfirleitt að það sem kemur frá IHF er dálítið fáránlegt. En við getum ekki gert svo mikið því það er erfitt að brjóta niður þeirra völd. Maður getur þó vonað að það gerist eitthvað í þessu sambandi svo að það verði meira vit í hlutunum,“ sagði Olsen.