Prófanir leiddu í ljós að fóðrið innihélt hættulegt magn af eiturefnunum aflatoxin, sem eru aukaafurð myglu sem vex á maís og öðru korni.
Samkvæmt upplýsingum frá PAK ehf, umboðsaðila Midwestern Pet Foods á Íslandi, eru þær vörur sem innköllunin nær til ekki seldar hér á landi. PAK flutti um tíma inn Sportmix Original Catfood en það fóður var tekið úr sölu um áramót.
Innköllun hófst í desember
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að Midwestern Pet Foods hafi byrjað innköllun á sumum vörum sínum í desember eftir að 28 hundar létust. Innköllunin var útvíkkuð í þessari viku eftir að greint var frá fleiri dauðsföllum. Nær hún nú til Sportmix, Pro Pac Originals, Splash, Sportstrail og Nunn Better þurrfóðurs ætlað köttum og hundum sem rennur út fyrir 9. júlí árið 2022. Bandaríska matvæla- og lyfjastofnunin, FDA, rannsakar nú málið.
Einkenni aflatoxin-eitrunar hjá dýrum eru meðal annars uppköst, sinnuleysi og skortur á matarlyst. FDA upplýsti á mánudag að áðurnefnd eiturefni gætu fundist í lífshættulegu magni í umræddu gæludýrafóðri sem væri sums staðar enn hægt að finna í hillum verslana og á heimilum gæludýraeigenda.
Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá PAK ehf.