Sú breyting er gerð frá útboðinu í fyrra að samhliða útboði flugbrautarinnar er einnig boðin út smíði flugvallabygginga, þar á meðal flugstöðvar og flugturns. Verktakar geta valið um hvort þeir bjóði aðeins í annan hlutann eða allan pakkann. Með þessu fyrirkomulagi vonast yfirvöld til að fá tilboð sem rúmist innan heildarfjárhagsáætlunar, að því er fram kemur í frétt Sermitsiaq. Tilboðsfrestur rennur út í marsmánuði.

Skoðað var í haust að hafa styttri flugbraut og minni byggingar en niðurstaðan er að engar breytingar verða á umfangi verksins. Áfram verður miðað við 1.500 metra langa flugbraut, sem hægt verði að lengja í 1.800 metra, og 4.300 fermetra flugstöð, nærri þrefalt stærri en áformað er að reisa á Reykjavíkurflugvelli.
Flugvallagerðin í Qaqortoq verður þriðja risaframkvæmdin í heildaruppbyggingu flugvallakerfis Grænlands, mestu innviðauppbyggingu í sögu landsins. Byrjað var haustið 2019 á gerð 2.200 metra langrar flugbrautar í Nuuk og í ársbyrjun 2020 var hafist handa við gerð 2.200 metra flugbrautar í Ilulissat við Diskó-flóa. Fylgjast má með framkvæmdum í Nuuk á vefmyndavélum Kalaallit Airports.

Flugvellinum í Qaqortoq er ætlað að taka við hlutverki vallarins í Narsarsuaq sem aðalflugvöllur Suður-Grænlands. Staðsetning Narsarsuaq-vallar þykir óhentug gagnvart helstu byggðum landshlutans en þaðan er tveggja tíma sigling á áætlunarbát til Qaqortoq. Nýi flugvöllurinn verður hins vegar aðeins sex kílómetra utan við Qaqortoq-bæ og verður bílvegur á milli.
Framkvæmdirnar snerta flugrekstur Íslendinga sem lengi hafa sinnt áætlunarflugi til þessa næsta nágrannalands Íslands. Þannig eru flugvellirnir í Nuuk, Ilulissat og Narsarsuaq í hópi fimm áfangastaða Air Iceland Connect á Grænlandi. Núverandi brautir í Nuuk og Ilulissat eru báðar mjög stuttar, um 900 metra langar, og takmarka því flug þangað við litlar vélar sem ráða við stuttar brautir.
Stöð 2 fjallaði um fyrra Qaqortoq-útboðið í frétt í febrúar í fyrra en þar mátti sjá tölvugert myndband af aðflugi að fyrirhuguðum flugvelli:
Íslenskur verkfræðingur, Erlingur Jens Leifsson, er verkefnastjóri Kalaallit Airports með flugvallagerðinni. Hér má sjá viðtal við hann um verkefnið: