Eftir harðvítug átök innan Siumut-flokksins, stærsta flokks landsins, náði Erik Jensen að fella Kim Kielsen úr formannsstólnum á flokksþingi í lok nóvember með 39 atkvæðum gegn 32. Hann hugðist í framhaldinu láta kné fylgja kviði og ná einnig af honum forsætisráðherrastólnum.
„Ég reikna fastlega með því að ég verði fljótlega formaður landsstjórnarinnar,“ sagði Erik Jensen í viðtali við grænlenska ríkisútvarpið KNR fyrr í mánuðinum.

Hann flaug síðan frá heimabæ sínum, Sisimiut, til höfuðstaðarins Nuuk til viðræðna við flokksfélaga sína og samstarfsflokkana tvo um að hann tæki jafnframt við forsæti landsstjórnar Grænlands. Á föstudag greindi fréttamiðillinn Sermitsiaq frá því að Erik Jensen væri aftur farinn heim til Sisimiut án þess að nokkur niðurstaða hefði fengist.
„Það eru engar afgerandi fréttir af viðræðunum. En ég get sagt að við höfum átt góða fundi, sem ég tel að við ættum að halda áfram þegar þingið kemur saman á ný,“ sagði Erik Jensen í viðtali við Sermitsiaq.
KNR segir að þetta svar hans geti einnig þýtt að viðræðum um leiðtogaskipti innan landsstjórnarinnar verði ekki fram haldið. Það líti núna út fyrir að Kim Kielsen haldi áfram.
Forystumenn hinna stjórnarflokkanna hafa ekkert tjáð sig um viðræðurnar. Þá hefur Kim Kielsen einnig hafnað viðtölum um stöðuna. Grænlenskir fjölmiðlar telja þó víst að hann hafi ekki í hyggju að standa sjálfviljugur upp úr forsætinu fyrir Erik Jensen.
Kim Kielsen var í kastljósi heimsfjölmiðlanna sumarið 2019 þegar Donald Trump, þáverandi forseti Bandaríkjanna, vildi kaupa Grænland. Hér má sjá svar hans í viðtali á Stöð 2: