Vopnuð útköll í fyrra voru 312 talsins. Árið 2019 voru þau 250 en árið 2018 voru þau 300. Þá voru útköllin aðeins hundrað talsins árið 2016. Sérsveitin er kölluð út þegar um vopnaða einstaklinga er að ræða.
„Maður veltir fyrir sér hvaða áhrif þessi neikvæða umræða hefur. Og þetta leyfi til þess að ráðast á fólk í umræðunni, oft á heiftugan máta,“ sagði Sigríður Björk í Víglínunni á Stöð 2 í dag. „Ég hef fengið bæði hótanir og umsátursástand við heimili mitt. Það er bara mjög erfitt að vinna með þetta.“
Þú vilt meina að svona umræða espi kannski fólk í að gera voðaverk?
„Hún hlýtur að gera það. Ef þetta er bara allt í lagi og viðurkennt og þú ert að samsama þig við einhverja hugmyndafræði eða slíkt.“
Einnig var rætt við Dag B. Eggertsson borgarstjóra í Víglínunni um skotárásina á bíl hans um síðustu helgi. Hann segist hafa heyrt í fjölda fólks sem hafi fengið hótanir í störfum sínum, en að málin hafi aldrei verið rædd. Hann segir atvikið vissulega hafa áhrif og segist þurfa að staldra við áður en hann ákveður næstu skref í stjórnmálum, en sveitarstjórnarkosningar fara fram eftir ár.
„Þessir atburðir, ég neita því ekki að þeir hafa fengið mann til að hugsa ýmislegt,“ sagði Dagur í Víglínunni í dag. „Ég brenn fyrir Reykjavík, borginni og borgarmálum, og mjög mörgum verkefnum þar en auðvitað vill maður heldur ekki hvorki tala né setja það fordæmi að hótanir eða einhver ógn hreki fólk af hinu pólitíska sviði. Það væri líka mjög vond þróun.“