Rut og félagar hennar í KA/Þór komust á toppinn í Olís deildinni í handbolta um helgina eftir endurkomusigur á ÍBV fyrir norðan.
Rut skoraði fimm mörk í leiknum en KA/Þór tryggði sér 24-23 sigur eftir að hafa unnið síðustu tuttugu mínútur leiksins 11-6.
Frekar fyndið atvik kom upp á lokamínútum leiksins þegar KA/Þór stelpur voru að fara í eina mikilvægustu sókn leiksins.
Allt í einu óð þjálfari ÍBV, Sigurður Bragason, inn á völlinn og að Rut Jónsdóttur. Sigurður hafði tekið eftir því að leikhlésspjald þjálfara KA-liðsins, var fast við rassinn á Rut.
Rut hafði farið af velli og hvílt í vörninni á undan og Andri Snær Stefánsson hafði væntanlega sett spjaldið frá sér á varamannabekkinn.
Rut fór síðan inn á völlinn í sóknina en harpixið sá til þess að leikhlésspjaldið var fast við rassinn á henni.
Sigurður Bragason sá spjaldið og fór inn á völlinn til að taka það af henni. Hann skilaði því síðan alla leið til þjálfara KA hinum megin á hliðarlínunni.
Dómararnir höfðu stöðvað leikinn en Sigurður slapp með refsingu enda hjálpsamur með eindæmum. Það var hlegið að atvikinu en svo haldið áfram.
Hér fyrir neðan má sjá atvikið.