Spjallinu með Góðvild hefur nú borist öflugur liðsauki í þeim Sigríði Kristínu Hrafnkelsdóttur og Siggu Heimis.
„Við erum virkilega ánægð að fá í teymið okkar þessar öflugu og reynslumiklu konur sem halda áfram að vera boðberar góðvildar í okkar samfélagi og eiga eftir að smita út frá sér og gera samfélagið okkar betra“ segir Sigurður Hólmar Jóhannsson.
Sigurður Hólmar hefur nú verið ráðinn framkvæmdastjóri Góðvildar og mun hann einnig halda áfram sem einn af þáttastjórnendum. Sigurður er faðir Sunnu Valdísar sem er greind með afar sjaldgæfan taugasjúkdóm og hefur hann um áraraðir verið talsmaður AHC á alþjóðavísu sem forseti AHC sambands Evrópu og formaður AHC International Alliance.
Sigríður Kristín er lýðheilsufræðingur að mennt og móðir langveiks og fjölfatlaðs ungs manns. Hún hefur látið sér mál langveikra og fatlaðra varða í áraraðir og hefur haldið fjölmarga fyrirlestra um málefni þess hóps.
Sigga Heimis er iðnhönnuður að mennt og þriggja barna móðir en drengurinn hennar Baltasar er fatlaður og með afar sjaldgæfan sjúkdóm. Hún hefur því mikla reynslu og er alltaf tilbúin að nota hana öðrum til góðs.
Sigurður segir hagsmunahóp Góðvildar sinna hagsmunagæslu fyrir langveik og fötluð börn með aðstoð lögmanns. Þess utan þá er Góðvild bakhjarl Bumbulóni og AHC samtakanna en einnig styður Góðvild heimili og stofnanir sem vinna með langveikum og fötluðum börnum.
Útgefnir þættir eru núna 23 talsins en Spjallið með Góðvild mun halda áfram á þriðjudögum á Vísi.
Verkefnið er afurð margra ára samstarfs Sigurðar Hólmars og Ágústu Fanneyjar Snorradóttur kvikmyndagerðarkonu og eiganda Mission Framleiðslu.
„Það hefur verið frábært að fylgjast með móttökunum sem þættirnir hafa fengið, við finnum hvað fólk kann virkilega að meta þennan vettvang til að koma málefnum á framfæri og við finnum mikinn áhuga fyrir því að opna betur á alla þessa umræðu. Ég er verulega stolt af verkefninu og hlakka til að sjá hvert það leiðir okkur,“ segir Ágústa Fanney að lokum.
