Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Embætti landlæknis segir að skimunin sé varúðarráðstöfun og allir sem sóttu tónleika á föstudagskvöldið og störfuðu þar eru hvattir til að mæta.
Viðkomandi eru einnig hvattir til að gæta vel að persónulegum smitvörnum og takmarka samskipti við aðra þar til niðurstaða liggur fyrir úr skimuninni á fimmtudaginn.
Hægt er að skrá sig á Mínum síðum á heilsuveru.is og þar má finna sérstakan hnapp fyrir tónleikagesti undir „einkennasýnatöku“.
Þeir sem ekki hafa rafræn skilríki eru beðnir að hafa samband við sína heilsugæslu eða Læknavaktina 1700.
Smitrakningarteymi almannavarna er nú önnum kafið við að ná utan um alla þá sem gætu hafa orðið útsettir fyrir smiti vegna þeirra tveggja sem greindust með kórónuveiruna utan sóttkvíar í gær. Þrjátíu starfsmenn Hagkaups í Garðabæ hafa þurft að fara í sóttkví auk 28 gesta World Class í Laugum á föstudaginn og tíu starfsmenn Pizzunnar í Núpalind í Kópavogi.