Þetta kemur fram í tilkynningu sem Þóra sendi á fjölmiðla í dag. Þar kemur fram að krafa Þóru á hendur Óperunni hafi ekki náð lágmarksfjárhæð til áfrýjunar, og því hafi Landsréttur þurft að taka tillit til annarra skilyrða varðandi áfrýjunarleyfi.
„Landsréttur getur veitt slíkt leyfi ef úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi eða varða mikilvæga hagsmuni eða ef ekki er útilokað samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að dómi kunni að verða breytt svo að einhverju nemi,“ segir í tilkynningunni.
Deila um kjarasamning FÍH
Mál Þóru á hendur Óperunni snýst um deilur sem risu milli óperustjóra Íslensku óperunnar og söngvara í sýningunni Brúðkaup Fígarós, sem sýnd var haustið 2019. Söngvarar töldu að kjarasamningur Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) við Óperuna gilti um ráðningu þeirra, en því var óperustjóri ósammála.
Vísir fjallaði ítarlega um málið þegar dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar.
„Ég fagna því að Landsréttur meti það svo að skilyrði séu fyrir veitingu áfrýjunarleyfis í því skyni að fá dóm héraðsdóms frá 8. janúar 2021 endurskoðaðan. Mikilvægir hagsmunir eru í húfi fyrir söngvara auk þess sem málið hefur fordæmisgildi fyrir aðra listamenn og íslenskan vinnumarkað í heild sinni,“ segir í tilkynningu frá Þóru.
Lögmaður Þóru er Gunnar Ingi Jóhannsson hæstaréttarlögmaður og fer hann með málið fyrir hennar hönd. Félag íslenskra hljómlistarmanna, Bandalag íslenskra listamanna, Félag íslenskra leikara og Fagfélag klassískra söngvara studdu öll áfrýjunarbeiðnina, að því er fram kemur í tilkynningunni.
„Það er grundvallarregla á Íslandi að kjarasamningar sem stéttarfélög hafa gert við stofnanir um lágmarkskjör séu virtir. Sú regla hefur verið óumdeild á íslenskum vinnumarkaði í tugi ára. Óhjákvæmilegt er að fá úr því skorið fyrir æðri dómstól hvort þessi réttur sé enn til staðar eða hvort hann hafi verið afnuminn.“