
Anna Maggý stundaði nám við Ljósmyndaskólann um nokkurra ára skeið og hefur starfað sjálfstætt sem ljósmyndari og leikstjóri síðan. Hún vakti strax mikla athygli sem ljósmyndari og listamaður og hafa verk hennar prýtt síður tímarita um heim allan. Tískutímaritið Vouge Italia sagði Önnu eina af bestu ljósmyndurum sinnar kynslóðar.
Anna opnaði nýlega sína aðra einkasýningu í Gallerý Þulu á Hverfisgötu 34. Sýningin heitir „The Perfect Body“ og stendur hún yfir til 23. maí. Sýningin er sölusýning en á síðustu sýningu Önnu, sem bar nafnið NOFRAME árið 2018, þá seldust öll verkin upp á fyrsta degi og segir Anna að fólk geti í þetta skiptið búist við mun stærri sýningu.
Í verkum sýningarinnar leikur Anna Maggý sér að brenglun á formum mannslíkamans. Hún segist vilja kanna mörkin á milli þess sem er samfélagslega samþykkt fegurð og þess sem er ósamþykkt og skoða með því kraftinn sem felst í formleysunni.
Okkur er ætlað að sjá brenglun, ófullkomleika, eitthvað sem hægt er að bæta eða breyta, skipta út, hliðra eða ummynda. Hinn skapaði fullkomleiki er þó jafn síbreytilegur og tunglstaðan frá degi til dags. Mörkin eru óljós og skolast sífellt til.
