Talsmenn WHO og heilbrigðisráðuneytis Seychelleseyja ítrekuðu í gær að meirihluti þeirra sem greindist jákvæður hefði ekki verið bólusettur eða aðeins fengið einn skammt af bóluefni og að allir þeirra sem hefðu veikst alvarlega eða dáið hefðu verið óbólusettir.
Talsmaður WHO sagðist hins vegar fylgjast vel með þróun mála í eyríkinu, þar sem íbúar eru um hundrað þúsund talsins og um hundrað greinast á dag þrátt fyrir að bólusetningar hafi gengið vel.
Meðalfjöldi greindra á viku hækkaði úr 120 í 314 fyrstu vikuna í maí og um 37 prósent greindra reyndust hafa verið fullbólusettir. Tveir þriðju allra greindru smituðust eftir nánd við smitaðan einstakling.
Hingað til hafa 57 prósent fullbólusettra á Seychelleseyjum fengið bóluefnið frá kínverska framleiðandanum Sinopharm en 43 prósent bóluefnið frá AstraZeneca. Nærri 60 prósent landsmanna hafa fengið báða skammta.
Um 8.200 hafa greinst með Covid-19 á eyjunum frá upphafi faraldursins en smitum hefur fjölgað síðustu misseri. WHO hefur sagt að bólusetningar muni ekki koma fullkomlega í veg fyrir smit, heldur verði áfram að sinna sóttvörnum á borð við handaþvott og grímunotkun.