Í stuttu máli má rekja málaferlin til þess að Apple lokaði á Fortnite í síma-stýrikerfi sínu eftir að Epic byggði eigið greiðslukerfi inn í tölvuleiknum. Apple krefst þrjátíu prósenta þóknunar af öllum keyptum snjallforitum í gegnum þjónustu fyrirtækisins sem heitir App Store og keyptum vörum innan þeirra forrita.
Ókeypis er að spila Fortnite en spilarar geta keypt nýja búninga fyrir persónuna sem þeir spila. Epic hefur grætt fúlgur fjár á þessum kaupum spilara.
Sjá einnig: Fortnite er enn arðbærasti leikur heims
Þegar Epic reyndi að fara framhjá Apple, lokaði Apple á Fortnite og Epic fór í mál við Apple. Forsvarsmenn fyrirtækja eins og Spotify og Match Group, sem rekur Tinder, hafa staðið við bakið á Epic.
Málið er reifað frekar hér.
Búist er við því að Cook muni bera vitni í um tvær klukkustundir í dag og verja snjallforritaviðskiptahætti Apple, sem fyrirtækið græðir gífurlega á á ári hverju, samkvæmt frétt Reuters fréttaveitunnar.
Nákvæmlega hve mikið Apple græðir á þessari þóknun er meðal þess em lögmenn Apple og Epic hafa deilt um í réttarhöldunum.
Lögmenn Apple segjast ætla að fá Cook til að ræða uppruna App Store og þá samkeppni sem Apple stendur í. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa haldið því fram að þóknunin hjálpi við að halda símum og tækjum Apple öruggum. Það sé einnig gert með því að stýra hvaða forrit eru leyfð í App Store.
Samkvæmt frétt CNN sagði einn yfirmanna Apple nýverið að fyrirtækið hefði til að mynda varið um hundrað milljörðum dala í þróunarvinnu sem nýttist öðrum fyrirtækjum sem gera snjallforrit.
Þá hefur Apple bent á fjölmörg önnur fyrirtæki, eins og Google, Samsund, Motorlola, Huawei og Microsoft sem eru einnig með þrjátíu prósenta þóknun í tengslum við sambærilega þjónustu varðandi snjallforrit og annað.