Jassy hefur verið yfir skýjavinnslu Amazon.
Ákvörðun Bezos var tilkynnt í febrúar og þá var haft eftir auðjöfrinum að hann vildi verja meiri tíma við stjórn annarra fyrirtækja sinna eins og Washington Post og Blue Origin, auk þess sem hann vildi verja meiri tíma í góðgerðarmál.
Amazon er, samkvæmt frétt CNN, metið á um 1,75 billjón dala, sem gróflega reiknað samsvarar um 218 billjónum króna (218.000.000.000.000)
Seinna í þessum mánuði stendur til að skjóta Bezos út í geim og til baka með eldflaug Blue Origin.
Sjá einnig: Á níræðisaldri og ætlar út í geim með Bezos
Umsvif Amazon hafa aukist töluvert undanfarið ár og rúmlega það og hefur sá vöxtur að miklu leyti verið rakinn til heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar. Samhliða því hafa áhyggjur ráðamanna vestanhafs og víðar á þessum miklu umsvifum aukist.
Stjórnmálamenn í Bandaríkjunum vilja koma böndum á Amazon og önnur stærstu fyrirtæki landsins. Bezos hefur verið kallaður fyrir þingmenn til að svara spurningum um markaðsstöðu Amazon og jafnvel meint samkeppnisbrot.
Þá var Bezos harðlega gagnrýndur í síðasta mánuði þegar gagnaleki sýndi fram á að ríkustu menn Bandaríkjanna, Bezos þar á meðal, greiddu lítinn sem engan skatt af tekjum sínum.