Þetta kemur fram í Morgunblaðinu en samkvæmt bréfum sem blaðið hefur undir höndum hafa kærur einnig verið lagðar fram gagnvart Bjórlandi ehf., Brugghúsinu Steðja ehf. og eigendum fyrirtækjanna.
Arnar Sigurðsson, eigandi Santewines SAS og Sante ehf., rekur netverslun með áfengi sem er með lager á Íslandi. Það vakti nokkra athygli í maí þegar Sante hóf að selja vín á vefsíðu sinni og bjóða upp á skjóta heimsendingu.
ÁTVR gaf út skömmu síðar að unnið væri að því að fá lögbann á starfsemina þar sem um væri að ræða skýrt brot á einkaleyfi ÁTVR til að selja og afhenda áfengi í smásölu. Arnar hefur alla tíð haldið því fram að fyrirkomulag vefverslunarinnar rúmist innan ramma laganna þar sem viðskiptavinir eigi í viðskiptum við franska fyrirtækið. Einstaklingum er heimilt að kaupa áfengi í erlendum vefverslunum en forsvarsmenn ÁTVR telja að rekstur Sante brjóti gegn lögum.

Fara fram á fangelsisrefsingu
Í kæru til lögreglu er kallað eftir rannsókn á meintum brotum Arnars og sagt að viðskiptin sem franska félagið Santewines SAS bjóði upp á sé „augljós málamyndagjörningur.“ Vínið sem selt sé til neytenda sé flutt inn af hinu íslenska Sante ehf. en svo selt áfram til Santewines SAS sem selji það svo áfram í gegnum verslun sína á netinu. Í millitíðinni flytjist vínin hins vegar ekki milli landa og séu vistuð á sama lagernum sem staðsettur er hér á landi.
„Ljóst er að ef um raunverulega sölu Sante ehf. úr landi væri að ræða þá þyrfti franska félagið að flytja áfengið inn að nýju áður en það yrði selt hér í smásölu,“ segir í kæru ÁTVR sem Morgunblaðið hefur undir höndum. Brotin varða sektum eða fangelsi að mati ÁTVR.
Í bréfi ÁTVR til Skattsins segir að franska félagið hafi hvorki íslenska kennitölu né virðisaukaskattsnúmer. Ellefu prósent virðisaukaskattur sé lagður á vörur en félagið hafi enga heimild til að innheimta virðisaukaskatt hér á landi.
Á heimasíðu Sante er gefið upp virðisaukaskattsnúmerið 140848 sem er skráð á persónulega kennitölu Arnars. ÁTVR heldur því fram í bréfinu að „ekkert bendi til þess“ að franska félagið greiði raunverulega skatta og skyldur af áfenginu.