Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landspítalanum sem birt var á Facebook. Í tölum á covid.is, sem uppfærðar voru í morgun, kemur fram að 24 séu inniliggjandi.
Landspítalinn er nú á hættustigi vegna Covid-19 en í þessari fjórðu bylgju faraldursins hafa alls 55 sjúklingar lagst inn á Landspítalann vegna Covid og um 40 prósent þeirra hafa verið óbólusettir.
Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítala, segir í samtali við fréttastofu að dagurinn í gær hafi verið þungur. Sex voru lagðir inn í gær og fimm á föstudag með Covid-19.
Annar þeirra sem er á gjörgæslu hefur verið þar í nokkra daga en hinn var lagður inn í gær að sögn Runólfs. Hann segist ekki viss um það hvort þeir tveir sem eru á gjörgæslu séu bólusettir, hann hafi ekki þær upplýsingar undir höndum.
Sex hafa þurft á gjörgæslustuðningi að halda og hafa tveir þeirra verið fullbólusettir.
Nú eru alls 1.386 í eftirliti á covid-göngudeild Landspítalans, þar af 277 börn og hefur þeim fækkað nokkuð. Einn þessara rúmlega 1.300 sjúklingar er flokkaður rauður, 49 flokkast gulir og þurfa nánara eftirlit.
Nú eru 19 starfsmenn spítalans í einangrun með Covid, fimmtán í sóttkví A og 69 í sóttkví C.