Ríkis- og sveitarstjórnir, ættbálkar frumbyggja, stéttarfélög og fleiri höfðuðu um þrjú þúsund mál gegn Purdue Pharma þar sem fyrirtækið var sakað um að valda ópíóíðafaraldrinum með stífrí markaðssetningu á verkjalyfinu Oxycontin. Áætlað er að um hálf miljón Bandaríkjamanna hafi látið lífið í faraldrinum til þessa.
Sáttin kaupir Purdue frá málaferlunum. Sackler-fjölskyldan gefur eftir eignarhlut sinn í fyrirtækinu og greiðir 4,5 milljarða dollara en nýtur friðhelgi fyrir frekari einkamálsóknum, að sögn AP-fréttastofunnar. Purdue óskaði eftir að vera tekið til gjaldþrotaskipta vegna málsóknanna fyrir tveimur árum.
New York Times segir háværar óánægjuraddir með að Sackler-fjölskyldan verði stikkfrí frá frekari málsóknum með sáttinni. Nokkur ríki hafa þegar sagst ætla að áfrýja niðurstöðunni, þar á meðal Connecticut og Washington-ríki.
Með falið fé á aflandsreikningum
Þrátt fyrir að Sackler-fjölskyldan fái ekki að græða meira á ópíóíðum verður hún enn á meðal þeirra auðugustu í Bandaríkjunum. Robert Drain, dómarinn við skiptaréttinn, sagði málalyktirnar beiskar og harmaði hversu mikið af auðæfum Sackler-fjölskyldunnar væri falið á aflandseyjum. Sáttin hefði átt að hljóða upp á hærri upphæð.
Fyrirtækinu sjálfu verður breytt í góðgerðarfélag sem opinberir embættismenn skipa. Hagnað þess á að nýta til þess að koma í veg fyrir að fólk ánetjist ópíóíðum og veita fíklum meðferð. Fórnarlömb faraldursins gætu fengið á bilinu 3.500 til 48.000 dollara á manna, jafnvirði 447.000 til 6,1 milljónar íslenskra króna.
Sackler-fjölskyldan nýtur ekki friðhelgi gegn saksókn yfirvalda með sáttinni en AP-fréttastofan segir ekkert benda til þess enn sem komið er að hún verði látin sæta slíkri ábyrgð á faraldrinum.