Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna yfirleitt fyrir klukkan sjö. Ég hef það fyrir vana að hlaupa 5-10 km úti á hverjum degi, hvort sem er á morgnanna eða í hádeginu. Hundurinn hleypur með mér, við þurfum báðir á þessu að halda. Ég fæ margar mínar bestu hugmyndir á þessum hlaupum.
Fyrir mér er hver morgunn eins og nýtt upphaf og ég vakna yfirleitt glaður og hlakka til dagsins.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Fyrsta sem ég geri er annað hvort að hlaupa eða fá mér kaffi og athuga hvað er í fréttum. Morgnarnir eru fyrir mér eins konar gæðatími, þar sem ég fæ næði til þess að lesa, skrifa eða skipuleggja daginn.
Ég skrifa að vísu aldrei neitt niður en ég reyni að setja niður fyrir mér hverju ég ætla að koma í verk næstu tólf tímana.“
Hver var hápunktur sumarsins 2021?
„Hápunktur sumarsins var þegar ég gekk Snæfjallaströnd núna í júlí með kærustu minni Helgu og hundinum Balto.
Þetta var fjögurra daga ganga með allt á bakinu, í blíðskaparveðri.
Balto okkar er sleðahundur, blanda af malamút og husky. Malamút kynið er upprunnið í Alaska og var notað mikið til dráttar og burðar enda höfðu frumbyggjar N-Ameríku engin önnur húsdýr en hunda.
Okkur fannst því góð hugmynd að Balto myndi sjálfur bera sinn eigin mat. En við höfðum ekki reiknað með því að hundurinn lagði á sig hvern krók í keldu, læk eða sjó til þess að sulla. Hann eyðilagði því hundamatinn strax á fyrsta degi.
Var nú matnum skipt í tvennt; það sem hundurinn gat étið og það sem við fengum að borða. Enduðum við uppi með hnetur og núðlusúpu. Þótti Helgu betra að láta mig svelta en hundinn.
Að öllu gamni slepptu þá eru mínar bestu stundir úti í íslenskri náttúru.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Svo má segja að við í Seðlabankanum séum nú að taka upp þráðinn eftir sumarið og leggja drög að vetrinum. Það eru ótal verkefni sem liggja nú fyrir.
Ég hef aðeins tímabundna ráðningu og lít svo á að ég hafi takmarkaðan tíma. Það mótar mjög mína nálgun í starfi.
Ég hefur sett niður aðgerðarplan og markmið hverju ég ætla að ná fram á þeim árum sem ég hef verið skipaður seðlabankastjóri.
Mér vitaskuld finnst alltaf allt ganga miklu hægar en ég hefði gert ráð fyrir. Ég hef nú verið seðlabankastjóri í tvö ár og á þessum tíma hefur margt áunnist. En margt er eftir.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég reyni að halda morgnunum fundarfríum svo ég hafi eitthvert næði til þess að vinna sjálfur. Síðan er síðdegið nýtt í fundi. Ég reyni annars að takmarka fundarhöld eins mikið og ég get, annars er dagurinn fljótur að brenna upp.
Nálgun mín í stjórnun byggir mikið á persónulegu trausti; að treysta framkvæmdastjórum bankans. Ég treysti því að þau láti mig vita af því sem ég þarf að vita og hafa mig með í ráðum í þeim málum sem skipta máli.
Ég reyni því að funda reglulega með hverjum og einstökum framkvæmdastjórum til þess að vera upplýstur um gang mála. Ég reyni einnig að koma með skýr markmið á þessum fundum, fyrir starfið á næstu árum eða mánuðum.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég reyni yfirleitt að fara að sofa upp úr 10 á kvöldin. Er reyna að venja mig af því að fara í farsímann uppi í rúmi.
Ég er svo lánsamur að vera gefið mikið vinnuþrek, ég var alinn upp við erfiðisvinnu og langan vinnudag. Þegar ég var yngri gat ég vel komist af án þess að sofa í vinnuskorpum . Þá vann ég frameftir á kvöldin og var síðan vaknaður snemma að morgni.
Með árunum hef ég hins vegar lært að setja sjálfum mér mörk. Þar með talið að fara snemma að sofa. Ég reyni þó enn að nýta kvöldin til ritstarfa og horfi aldrei á sjónvarp.“