Slysið átti sér stað í bænum San Miguel de Abona. Konurnar sátu fimm saman að snæðingi þegar toppurinn af pálmatré féll fyrirvaralaust ofan á þær.
Eiginmaður einnar þeirra sem vildi ekki koma fram undir nafni til að varðveita friðhelgi einkalífs kvennanna segir að tvær þeirra séu verulega slasaðar á gjörgæsludeild sjúkrahúss á staðnum. Ein þeirra eigi að fara í aðgerð í dag en hin á morgun. Fjölskyldur þeirra séu á leiðinni út til að vera með þeim.
Hinar þrjár konurnar séu verulega lemstraðar með áverka á hálsi og fótum, þar á meðal eiginkona hans. Þær komi heim til Íslands annað kvöld.
Þrír Íslendingar sem áttu leið hjá náðu að lyfta trénu af konunum, að sögn eiginmannsins. Þar sem konurnar lágu slasaðar segir hann að óprúttnir náungar hafi stolið símum þriggja þeirra.