Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Sif Atladóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir ættu að mæta fullar sjálfstrausts til Íslands, í landsliðsverkefnið sem nú tekur við. Þær eiga þrjú af ellefu sætum í liði 16. umferðar sænsku úrvalsdeildarinnar hjá Sportbladet.
Sveindís er annar tveggja sóknarmanna liðsins eftir að hafa skorað frábært sigurmark gegn Linköping. Sveindís hafði leikið fimm deildarleiki í röð án þess að skora fyrir Kristianstad en braut ísinn með stæl eins og sjá má hér að neðan.
Sif varð móðir í annað sinn fyrir ári síðan en hefur snúið aftur af krafti á þessu tímabili og þannig komist aftur í íslenska landsliðshópinn. Sportbladet segir hana eiga hvað stærstan þátt í því að Kristianstad fékk ekki á sig mark gegn Linköping, í fyrrnefndum 1-0 sigri.
Hin 18 ára gamla Cecilía, helmingi yngri en Sif, er svo markmaður „stóru leikjanna“ að mati Sportbladet. Hún hélt markinu hreinu gegn toppliði Rosengård fyrr í sumar og átti mjög góðan leik í síðustu umferð þrátt fyrir 2-0 tap Örebro á útivelli gegn Häcken, sem er í 2. sæti deildarinnar.
Cecilía hélt hreinu í tæpar 75 mínútur en Häcken náði að tryggja sér sigur í lokin.
Undirbúningur landsliðsins að hefjast
Íslenska landsliðið hefur á morgun undirbúning sinn fyrir leikinn við Evrópumeistara Hollands. Það er eini leikur liðsins að þessu sinni en Ísland mætir svo Tékklandi og Kýpur 22. og 26. október. Liðið er einnig í riðli með Hvíta-Rússlandi. Efsta lið riðilsins kemst á HM 2023 í Ástralíu og Nýja-Sjálandi en liðið í 2. sæti fer í umspil.