Allt hefur gengið á afturfótunum hjá Östersund á tímabilinu og liðið er neðst í sænsku úrvalsdeildinni, sex stigum frá öruggu sæti.
Amir Azrafshan var rekinn sem þjálfari Östersund og við starfi hans tók Norðmaðurinn Per Joar Hansen.
Þeir Lars þekkjast vel en Hansen var aðstoðarmaður Svíans með norska landsliðið. Og Hansen hefur leitað í viskubrunn Lars sem er kominn í þjálfarateymi Östersund.
„Þú verður að kenna Perry um að ég er hér,“ sagði Lars í viðtali á Facebook-síðu Östersund. „Ég fékk starfið í gegnum Perry. Við erum góðir félagar, auk þess að ég bý sjálfur hundrað kílómetra í burtu, sagði ég að ég myndi að sjálfsögðu hjálpa til á einhvern hátt ef ég gæti.“
Lars leggur áherslu á að hann sé bara til aðstoðar hjá Östersund. Hansen ráði ferðinni.
„Ef Perry vill að ég geri eitthvað þá geri ég það. Ég hef séð síðustu þrjá leiki Östersund og við höfum rætt andstæðingana auk frammistöðu Östersund. Ég reyni að hjálpa til á sem bestan hátt en það er Perry sem ræður og tekur ákvarðanirnar,“ sagði Lars.
Hann var í þjálfarateymi Arnars Þórs Viðarssonar með íslenska landsliðið en hefur látið af því starfi.