Samningur Kristins við Val rann út nú í lok leiktíðar. Þessi 29 ára gamli leikmaður lék með Val frá árinu 2012, utan eins árs í atvinnumennsku í Svíþjóð, og vann meðal annars tvo Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla.
Þrjá þessara titla vann Kristinn undir stjórn Ólafs Jóhannessonar sem tók við FH í sumar og samdi á dögunum um að stýra liðinu næstu tvö ár.
„Já, auðvitað er hann [Ólafur] mjög stór þáttur í því [ákvörðun Kristins]. En það má ekki gleyma því að FH er stórveldi á Íslandi. Það er mikill metnaður til staðar og allt til alls til að ná árangri. Aðstaðan er framúrskarandi, þarna eru reynslumiklir menn í bland við unga, spræka stráka, og frábært fólk í kringum félagið. Það er metnaður þarna til að gera betur en undanfarin ár og ég er fenginn inn til að hjálpa við það,“ sagði Kristinn. Viðtalið við hann má sjá hér að neðan.
„Haltu mér, slepptu mér“
En bauðst honum að vera áfram hjá Val?
„Þetta er búið að vera skrýtið undanfarna mánuði. Það eru búin að vera svona „haltu mér, slepptu mér“-móment í þessu. Á endanum er ég mjög ánægður með þá niðurstöðu sem varð ljós um helgina og ég er mjög spenntur fyrir komandi tímum,“ sagði Kristinn.
Eftir að ljóst varð að hann færi frá Val fundaði Kristinn með Óskari Hrafni Þorvaldssyni, þjálfara Breiðabliks, og Rúnari Kristinssyni, þjálfara KR.
„Það voru önnur lið sem komu til greina. Ég hitti Rúnar og ég hitti Óskar Hrafn, og það var mjög áhugavert og ég var auðvitað spenntur fyrir þeim verkefnum líka. En þegar Óli var tilkynntur hjá FH og FH-ingar ræddu við mig um hvernig þeir sæju næstu ár fyrir sér þá var svo sem aldrei spurning hvar ég myndi enda.“