Frá þessu er greint í Morgunblaðinu og á mbl.is og vísað í ónafngreinda heimildarmenn.
Þar segir að innan KSÍ sé farið með tölvupóstinn sem trúnaðarmál en að fjallað hafi verið um hann á stjórnarfundi sambandsins 30. september.
Samkvæmt heimildum mbl.is virðist pósturinn hafa orðið til þess að Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari gat ekki valið alla þá leikmenn í hópinn gegn Armeníu og Liechtenstein sem hann hafði hug á að velja.
Að því er fram kemur í umfjöllun mbl.is eru Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson meðal þeirra sem nafngreindir eru í tölvupóstinum. Fjallað hefur verið um mál þeirra í fjölmiðlum.
Hinir hafi ekki verið nafngreindir en þeir hafi allir verið fastamenn í landsliðshópnum undanfarinn áratug og eigi allir að baki marga landsleiki fyrir A-landsliðið.
Málið er sagt vera til skoðunar hjá Sigurbjörgu Sigurpálsdóttur, samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, sem starfar fyrir Domus Mentis Geðheilsustöð á grundvelli starfssamnings við mennta- og menningarmálaráðuneytið.