Samkvæmt frétt Bloomberg var búist við því að fyrirtækið myndi framleiða um 90 milljónir síma á þessu ári. Ólíklegt þykir að það muni takast vegna skortsins og verða símarnir líklega ekki fleiri en 80 milljónir, samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg.
Guardian segir forsvarsmenn Apple ekki hafa viljað tjá sig um frétt Bloomberg.
Skorturinn á hálfleiðurum sem notaðir eru í alls konar raftæki hefur komið niður á framleiðendum víða um heim en hvað verst á bílaframleiðendum. Búist er við því að framboð muni ekki anna eftirspurn fyrr en í fyrsta lagi árið 2023.
Þessi skortur hefur meðal annars komið niður á framleiðslu Sony á Playstation 5 leikjatölvum.
Sjá einnig: Búast ekki við að anna eftirspurn út 2022
Apple hefur áður sagt að skorturinn hafi komið niður á framleiðslu fyrirtækisins á tölvum og spjaldtölvum.
Ofan á flöguskortinn hefur mikil hækkun orkuskortur og hækkun orkuverðs í Kína og víðar í Asíu leitt til þess að verksmiðjum hefur verið lokað og skortur er að myndast á öðrum vörum. Ofan á það eiga flutningafyrirtæki við manneklu að stríða.
Hvíta húsið varaði nýverið við því að Bandaríkjamenn megi búast við hærri verðum og tómum hillum um jólin. Svipaða sögu er að segja frá Bretlandi, samkvæmt Guardian.