Patel segir það gríðarlega mikilvægt að tryggja öryggi þingmanna og að lögregla hafi þegar haft samband við alla þingmenn og veitt þeim öryggisráð.
David Amess var stunginn til bana á föstudaginn þar sem hann var staddur í kjördæmaskrifstofu sinni í Leigh-on-Sea. Amess var í kjördæmaheimsókn þegar hann var myrtur en Patel hefur lagt sérstaka áherslu á að tryggja öryggi þingmanni í slíkum ferðum.
„Við þurfum að loka öllum glufum, hvar sem okkur finnst vera áhyggjuefni,“ sagði Patel í viðtali við Sky News. Þá sagði hún að brýn þörf sé á aðgerðum tafarlaust.
Lindsay Hoyle, forseti neðri deildar breska þingsins, sagði í grein í Observer í dag að hann væri að endurskoða öryggisreglur þingsins. Hann segir nauðsynlegt að skoða hvort vernd þingmanna sé næg, sérstaklega í kjördæmaheimsóknum.