Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að í upphaflegri auglýsingu um embættið hafi verið veittur tveggja vikna lögbundinn lágmarksfrestur en ráðherra hafi nú ákveðið að veita mögulegum umsækjendum rýmri tíma en áskilið sé í lögum nr. 70/1996.
Ráðherra hefur jafnframt lengt setningartíma Guðlaugar Rakelar Guðjónsdóttur í embætti forstjóra um tvo mánuði, það er til 1. mars næstkomandi.
Páll Matthíasson tilkynnti fyrr í mánuðinum að hann hafi ákveðið að biðjast lausnar eftir að hafa gegnt embættinu í um átta ár.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Friðjón Friðjónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, voru í hópi þeirra sem höfðu gagnrýnt þann skamma tíma sem gefinn var umsækjendum. Sagði Friðjón í samtali við RÚV að fá opinber störf væru flóknari eða viðameiri en einmitt umrætt embætti. Velti hann því upp hvort ráðuneytið kærði sig ekki um að fá margar umsóknir um stöðuna.
Helga Vala taldi frestinn sömuleiðis óeðlilega stuttan. Sagði hún að um stórt og mikilvægt starf væri að ræða. Sagðist hún halda að þeir umsækjendur sem gætu komið til greina vildu skila frá sér vandaðri umsókn og greina frá því sem þau sjá að betur megi fara í rekstri spítalans.