Samkvæmt ársskýrslu KSÍ námu laun og bifreiðastyrkur til Guðna á síðasta ári alls um 19,7 milljónum króna. Það gerir að meðaltali um 1,64 milljón króna á mánuði, þrátt fyrir að formaðurinn hafi tekið á sig launaskerðingu vegna kórónuveirufaraldursins. Enn liggur ekki ljóst fyrir hvernig starfslokasamningi við hann verður háttað.
Guðni hefur hingað til ekki tjáð sig um viðskilnaðinn við KSÍ en hann sagði af sér eftir þrýsting frá hluta knattspyrnuhreyfingarinnar vegna meðhöndlunar á upplýsingum um meint ofbeldisverk landsliðsmanna.
Guðni sagði af sér eftir neyðarfundi undir lok ágúst en hafði áður lagt til að hann myndi víkja tímabundið sem formaður. Þá tillögu samþykkti þáverandi stjórn KSÍ ekki.
Stjórnin sagði svo öll af sér degi á eftir formanninum og boðað var til aukaþings sem haldið var í byrjun október. Á aukaþinginu var Vanda sjálfkjörin nýr formaður þar sem hún var ein í framboði.
Síðasta stjórn ræddi málið en tók ekki ákvörðun
Á síðustu fundum fyrrverandi stjórnar var rætt um starfslok Guðna undir liðnum „önnur mál“ en engin ákvörðun tekin um starfslokasamning við hann.
Nú er málið því komið í hendur nýrrar stjórnar sem á síðasta stjórnarfundi, 11. október, fól nýjum formanni að leiða uppgjörið við Guðna til lykta.

Nýr formaður í kjaranefnd
Samkvæmt lögum KSÍ sér þriggja manna kjaranefnd um að gera tillögu til stjórnar KSÍ um laun formanns og annað sem viðkemur kjörum hans. Ætla má að kjaranefnd komi með einhverjum hætti að málinu.
Margrét Sanders var einmitt skipuð nýr formaður kjaranefndar á síðasta stjórnarfundi og tók við starfinu af Jónasi Gesti Jónassyni sem sagði sig úr nefndinni vegna starfa sinna, að því er segir í síðustu fundargerð.
Í samtali við Vísi vildi Vanda ekki tjá sig um málið að svo stöddu en sagði það geta skýrst bráðlega. Hún vildi ekki segja til um hvernig ákvörðun yrði tekin um starfslokasamning Guðna. Næsti stjórnarfundur er í dag en Vanda vildi ekki svara því hvort þar yrði einhver ákvörðun tekin um málið.