Í tilkynningunni segir að íslensku stéttarfélögin sem eigi aðild að Norræna flutningasambandinu hafi lagst gegn því að aðild ÍFF að sambandinu yrði endurnýjuð. Vegna þess að ÍFF hafi gert kjarasamning án aðkomu flugfreyja og flugþjóna sem samningnum hafi verið ætlað að taka til.
Íslensku stéttarfélögin sem eru í NTF eru Flugfreyjufélag Íslands, Félag íslenskra atvinnuflugmanna, Flugvirkjafélag Íslands og Sjómannafélag Íslands.
ÍFF var í NTF á árunum 2017 til 2019 en aðildin var dregin til baka eftir gjaldþrot WOW air. Aftur var sótt um inngöngu í sumar en henni hefur nú verið hafnað og vísar NTF í 8. gr. laga sambandsins um inngöngu.
Í þeirri grein segir að innganga í sambandið sé skilyrðin því að umsækjendafélag hafi skriflega lýst því yfir að farið verði að lögum NTF og formlegum samþykktum þess.
Þá segir í tilkynningu ASÍ að Norræna flutningasambandið hvetji Íslenska flugstéttafélagið til að gera bragarbót á núgildandi kjarasamningi við flugliða hjá Play hið fyrsta.
ASÍ og Play hafa átt í deilum á undanförnum mánuðum vegna kjaramála flugfreyja og flugþjóna. ASÍ hefur haldið því fram að kjör þessa starfsfólk séu of lág og hafa forsvarsmenn ASÍ jafnvel hvatt Íslendinga til að sniðganga Play.
ASÍ skilgreinir ÍFF sem „gult stéttarfélag“ með beina tengingu við atvinnurekandann.
ÍFF hefur mótmælt ásökunum ASÍ harðlega.