Manning bræðurnir Peyton og Eli eru báðir hættir að spila eftir farsæla NFL-ferla sína en þeir lýsa nú mánudagsleikjunum saman á ESPN2. Þar fá þeir meðal annars góða gesti til sín en það er óhætt að segja að það boði ekki gott fyrir viðkomandi.
Svo illa gengur hjá þeim sem mæta í viðtal við Manning bræður að menn í NFL heiminum eru farnir að tala um Manning álögin.
Travis Kelce, innherji Kansas City Chiefs, og Russell Wilson, leikstjórnandi Seattle Seahawks, mætu báðir í viku eitt og viku seinna tapaði Kansas City á móti Baltimore og Seattle lá á móti Tennessee í framlengingu.
Rob Gronkowski kom í viku tvö en Tampa Bay Buccaneers lið hans tapaði síðan á móti Los Angeles Rams í viku þrjú.
Matthew Stafford, leikstjórnandi Los Angeles Rams, var búinn að fagna sigri í þremur fyrstu umferðunum þegar hann mætti í viðtal hjá Peyton og Eli en tapaði fyrsta leiknum á móti Arizona Cardinals viku eftir viðtalið.
Tom Brady mætti síðan til Manning bræðra en tapaði síðan á móti New Orleans Saints viku seinna. Josh Allen var svo sá síðasti til að bætast í hópinn þegar Buffalo Bills tapaði óvænt á móti einu slakasta liðið deildarinnar í gær.