Fyrrverandi starfsmenn Sælukots og aðstandendur barna sem þar hafa dvalið sendu frá sér yfirlýsingu í vikunni þar sem þess var krafist að skólanum yrði lokað og róttækar breytingar gerðar á starfsháttum.
Bent var á að starfsmaður skólans sem hafði verið sakaður um kynferðisbrot gegn einu barnanna hafi oft verið látinn vera einn með börnum, meðal annars til að skipta á þeim.
Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla-og frístundasviðs segir um sjálfstætt starfandi leikskóla að ræða sem þurfi að fara eftir viðmiðun Reykjavíkurborgar í starfi sínu. Ef miklir vankantar séu á því sé hægt að rjúfa samninga við stofnanir.
„Þetta er alvarlegt mál og það bera að skoða ofan í kjölinn. Það skiptir miklu máli að þær athugasemdir sem gerðar eru birtist í gögnum. Það sem við erum að gera núna er að fá svör og skýringar áður en ákvörðun um framhaldið er tekin,“ segir Helgi.
Aðspurður um hvort að grunsemdir hafi vaknað í úttektinni um að fleiri börn hafi sætt kynferðisofbeldi skólanum svarar Helgi:
„Nei. Við höfum engar upplýsingar um það.“
Hann segir að viðtöl við aðstandendur skólans standi nú yfir.
„Við áttum fund með aðstandendum skólans í gær og höldum þeim áfram í dag þar sem við leggjum fram ýmsar spurningar sem við viljum fá svör við varðandi reksturinn. Og gerum svo skýrslu um málið sem við búumst við að verði tilbúin í næstu viku,“ segir Helgi.
Aðspurður um hvort margir foreldrar barna í skólanum hafi beðið um flutning fyrir börn sín svarar Helgi.
„Það hafa einhverjar slíkar beiðnir borist en ég hef ekki yfirlit yfir fjölda þeirra.“
Helgi segir að málið í heild sýni mikilvægi þess að borgin hafi skýra samninga við sjálfstætt starfandi leikskóla um viðmið í starfi með börnum og starfsfólki.
„ Við erum t.d. að skoða hvort ástæða sé til að gera þær kröfur til sjálfstætt starfandi skóla að leikskólastjórar séu ávallt í fullu starfi eins og hjá leikskólum á vegum borgarinnar. Þá er verið að kanna hvort borgin setji inn í samninga að þurfi að koma yfirlýsing frá stéttarfélögum um að laun og aðbúnaður starfsmanna í sjálfstætt starfandi leikskólum sé í samræmi við kjarasamninga. Við ætlum að rýna mjög vel viðmið okkar gagnvart þeim sjálfstæðu skólum sem eru til staðar,“ segir Helgi að lokum.