Síðustu ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra lagt áherslu á að framkvæmdum við Vatnsnesveg verði flýtt vegna mjög slæms ástands vegarins, sem hefur veruleg áhrif á lífsgæði þeirra sem búa á Vatnsnesi. Þá hefur orðin mikil aukning á umferð ferðamanna um veginn og slys á veginum of tíð. Skólabíll far um veginn daglega með börn í grunnskólann á Hvammstanga.
„Vatnsvegurinn, þetta er 70 kílómetra vegur, sem er um Vatnsnesið. Þetta er mjög slæmur malarvegur eins og við höfum reyndar oft fjallað um og fáum aldrei leið á að tala um. Vegurinn er núna búin að vera í verulega slæmu ástandi í haust og er núna í mjög slæmu ástandi. Ég get tekið sem dæmi að við erum að keyra skólakrakka þessa leið daglega og það hefur farið allt upp í tvo tíma og tuttugu mínútur, sem þau hafa þurft að sitja í bíl, sem ætti að vera innan við klukkutíma akstur. Börnin koma mörg hver lasinn í skólann og þurfa að jafna sig í fyrsta tíma eftir að hafa verið í skólabílnum,“ segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra.

Ragnheiður Jóna segir að vegurinn sé kominn inn á samgönguáætlun en ekki er gert ráð fyrir að framkvæmdir við hann hefjist fyrr en á þriðja tímabili áætlunarinnar, eða á árunum 2030-2034, sem er algjörlega óásættanlegt fyrir íbúa Húnaþings vestra. Því sé hafin hópfjármögnunum á Karolinafund þar sem ætlunin er að safna 100 milljónum króna upp í veginn, sem er hins vegar bara brot af kostnaði við veginn en yrði til þess að hægt væri að hefja hönnun vegarins strax.
Ertu bjartsýn á að þið náið að safna 100 milljónum?
„Já, ég er bjartsýn á það,“ segir Ragnheiður Jóna.