Krafa saksóknarar byggði á því að MHRC hafði stutt Votta Jehóva í Rússlandi, sem yfirvöld landsins hafa skilgreint sem öfgasamtök og bannað í Rússlandi. MHRC hefur því sömuleiðis verið skilgreind sem öfgasamtök.
France24 segir kröfuna einnig hafa byggt á því að MHRC hafi ekki titlað sig sem „útsendara erlendra aðila“ á ritum sem samtökin gáfu út og fyrir að réttlæta hryðjuverkastarfsemi og öfgar. MHRC hefur haldið lista yfir pólitíska fanga í Rússlandi. Á þeim lista eru Alexei Navalní og nokkrir Vottar Jehóva sem hafa verið fangelsaðir á undanförnum árum.
Samkvæmt Moscow Times höfðu mannréttindasamtökin verið skilgreind sem útsendari erlendra aðila árið 2014. Slíkri skilgreiningu er reglulega beitt í þeim tilgangi að grafa undan rekstri samtaka sem þessara og fjölmiðla í Rússlandi.
Sjá einnig: Enn fleiri sjálfstæðum fjölmiðlum lokað í Rússlandi
MHRC eru systursamtök Memorial, elstu mannréttindasamtaka Rússlands, sem hæstiréttur landsins úrskurðaði í vikunni að ætti að hætta starfsemi sinni.
Memorial var stofnað á níunda áratugi síðustu aldar til þess að halda utan um og skrásetja pólitíska kúgun í Sovétríkjunum. Samtökin héldu meðal annars utan um lista yfir þá sem sendir voru í gúlagið og fórnarlömb Hreinsananna miklu.
Sjá einnig: Hæstiréttur Rússlands gerir elstu mannréttindasamtökunum að hætta starfsemi
Áður en úrskurðinn var kveðinn upp í morgun sagði Alexander Cherkasov, yfirmaður MHRC að lokun samtakanna sýndi fram á að pólitísk kúgun væri staðreynd í Rússlandi. Samtökin hefðu ekkert gert nema varið rússneska ríkisborgara og Rússland I þrjá áratugi.
„Ef okkur verður lokað vegna þessa, mun það staðfesta ofsóknir rússneskra borgara af pólitískum ástæðum,“ sagði hann.