Forsetinn segir mótmælin skipulögð af „hryðjuverkahópum“ en sérfræðingar segja þau hins vegar mega rekja til undirliggjandi reiði og óánægju með stjórnvöld, sem hafi ekki tekist að færa landið inn í nýja tíma.
Tokayev hefur lýst yfir neyðarástandi og komið á útgöngubanni á næturnar og bannað fjöldasamkomur. Þá hefur hann heitið því að beita hörðum aðgerðum til að kveða niður mótmælin.
Öryggissveitir segjast hafa drepið tugi mótmælenda í borginni Almaty, þegar þeir freistuðu þess að ráðast inn á lögreglustöð. Að minnsta kosti átta lögreglumenn hafa fallið í átökum.
Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu og stjórnarformaður CSTO, hefur staðfest að bandalagið muni senda friðargæsluliða til Kasakstan „í takmarkaðan tíma“. Stjórnvöld í Bandaríkjunum fylgjast vel með ástandinu og hafa hvatt bæði stjórnvöld og mótmælendur til að stíga varlega til jarðar.