Fljótt á litið lætur gangbrautin ekki mikið yfir sér en hún er eiginlega langt frá því að vera venjuleg. Þegar stigið er á hana lýsist hún upp, eins og fréttamaður sannreyndi í skammdeginu fyrir framan Melaskóla í morgun.
Gangbrautin við Melaskóla var tekin í notkun nú í haust og er ein af fjórum LED-lýstum snjallgangbrautum í Reykjavík; hinar þrjár voru reistar við Rofabæ, Seljaskóga og Fjallkonuveg.

Gangbrautirnar eru búnar skynjara og lýsast eingöngu upp þegar gangandi eða hjólandi vegfarendur nálgast. Þær haldast myrkvaðar þegar bíla ber að garði. Þá fylgja þeim jafnframt upplýst gangbrautarskilti en áætlaður kostnaður við verkefnið 2020 var 190 milljónir króna.
Nemendur og foreldrar sem fréttastofa tók tali þegar þeir streymdu í skólann í morgun létu afar vel af gangbrautinni snjöllu, líkt og sjá má í spilaranum hér fyrir ofan.