Virginia Torrecilla kom inn á sem varamaður þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Þetta var fyrsti leikur hennar í tæp tvö ár. Torrecilla greindist með heilaæxli í maí 2020. Í kjölfarið gekkst hún undir aðgerð og svo lyfjameðferð.
Torrecilla sneri aftur til æfinga í mars í fyrra og lék loks sinn fyrsta leik með Atlético eftir veikindin í gær. Það var hennar fyrsti keppnisleikur síðan hún lék með spænska landsliðinu í 1-0 sigri á því enska á SheBelieves Cup í mars 2020.
Það voru ekki bara samherjar Torrecillu sem voru ánægðir að sjá hana aftur inni á vellinum heldur einnig mótherjarnir í Barcelona. Og eftir leikinn tolleruðu Börsungar Torrecillu eins og sjá má hér fyrir neðan.
La Supercopa no ha estat l única victòria d avui
— FC Barcelona Femení (@FCBfemeni) January 23, 2022
@virginiiiaTr pic.twitter.com/fJf8CJIiWS
Torrecilla lék með Barcelona á árunum 2012-15 og varð þrívegis spænskur meistari með liðinu. Þá hefur hún leikið með mörgum leikmönnum liðsins í spænska landsliðinu. Hin 27 ára Torrecilla hefur leikið 66 landsleiki og skorað í þeim sjö mörk.
Eftir fjögur ár hjá Montpellier í Frakklandi gekk Torrecilla í raðir Atlético sumarið 2019.