„Við erum svo hoppandi glöð. Okkur í sviðslistastofnunum og menningarhúsum er náttúrulega efst í huga þakklæti fyrir þetta traust sem okkur er sýnt,“ sagði Brynhildur með bros á vör í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Reglugerðarbreytingin tekur gildi á morgun og þýðir að svo lengi sem ekki séu fleiri en fimm hundruð í hólfi á sitjandi viðburði þarf ekki að gæta nálægðartakmarka.
Þetta gjörbreytir rekstrarumhverfi leikhúsanna svo dæmi séu tekin, sem geta nú farið að fylla sali sína á ný án nálægðartakmarkana.
„Þetta skiptir öllu máli fyrir okkur. Já við getum gert það. Guð minn almáttugur. Hér var hrópað húrra og stokkið hæð sína upp úr öllum sætum. Nú getum við fyllt salinn. Þessi meter virðist kannski ekki mikið út á við en áhrifin sem að þetta hefur á okkur eru vissulega bara mjög neikvæð áhrif á afkomu leikhússins,“ sagði Brynhildur sem óskaði nýverið eftir tugmilljóna styrk til að mæta rekstrartapi leikhússins af völdum faraldursins.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eiga rúmlega fimmtíu þúsund manns miða á leikritin Emil í Kattholti og 9 líf sem sýnd eru í Borgarleikhúsinu. Búast má því við því að miðahafar fari að flykkast í leikhúsin á nýjan leik.
„Við viljum ítreka að við hefðum aldrei verið að knýja á þetta nema bara að því að við vitum að þetta er öruggt. Við sem að sýslum með það að búa til upplifun og tilfinningar, og tökum á móti fólki, þetta er í takti við þær afléttingar sem eru í gangi í samfélaginu og við vitum að þetta er öruggt,“ sagði Brynhildur.