Arnór og félagar tóku forystuna snemma leiks og náðu mest sex marka forskoti í fyrri hálfleik. Þeir héldu því forskoti fram að hléi, en staðan var 15-9 þegar gengið var til búningsherbergja.
Gestirnir í Lemgo höfðu því verk að vinna í síðari hálfleik og liðið saxaði hægt og bítandi á forkot heimamanna. Þeir náðu að minnka muninn niður í tvö mörk í tvígang, en nær komust þeir þó ekki.
Heimamenn skoruðu svo seinustu þrjú mörk leiksins og unnu að lokum góðan fimm marka sigur, 32-27.
Arnór Þór átti fínan leik fyrir Bergischer og skoraði fimm mörk. Liðið situr nú í tíunda sæti deildarinnar með 17 stig eftir 21 leik. Bjarki Már var markahæsti maður vallarins með níu mörk fyrir Lemgo, en liðið situr sæti fyrir ofan Bergischer með 20 stig.
LöwenLive - #bergischerhc vs @tbvlemgolippe @liquimoly_hbl Endstand 32:27 #diekraftinuns #dasloewenrudel #hartwieeisen
— BergischerHC (@BHC06) February 20, 2022
Þá þurfti Íslendingalið Stuttgart að sætta sig við sjö marka tap gegn Füchse Berlin, 29-22. Andri Már Rúnarsson komst ekki á blað í liði Stuttgart og Viggó Kristjánsson var ekki í leikmannahóp liðsins.
Að lokum vann Gummersbach góðan þriggja marka sigur gegn Eisenach, 28-25, í þýsku B-deildinni. Hákon Daði Heimisson og Elliði Snær Viðarsson leika með liðinu og undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar trónir liðið á toppi deildarinnar með tveggja stiga forskot og stefnir hraðbyri upp í úrvalsdeildina.