Skoðun

At­vinnu­þátt­taka fatlaðs fólks efld á al­mennum vinnu­markaði

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar

Í síðustu viku fékk ég að kíkja í heimsókn til Ás styrktarfélags. Tilefnið var að skrifa undir styrktarsamning þar sem við erum að styðja við nýtt verkefni hjá samtökunum, en það miðar að því að efla atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði. Um er að ræða sérstaka aðferðafræði að bandarískri fyrirmynd og nefnist verkefnið Project Search á ensku. Verkefnið var upphaflega sett af stað árið 1996 og er í dag starfað eftir módelinu víðsvegar í Bandaríkjunum og 10 öðrum löndum. Vinnumálastofnun og Ás styrktarfélag munu útfæra verkefnið saman.

Tryggjum fjölbreytt störf fyrir fatlaða

Eitt af áherslumálum mínum sem félags- og vinnumarkaðsráðherra er að fjölga markvisst starfstækifærum einstaklinga með fötlun og skerta starfsgetu. Það að tilheyra hópi og hafa hlutverk skiptir okkur öll miklu máli í lífinu. Fatlað fólk á oft í erfiðleikum með að finna störf við hæfi og þess vegna þurfum við að tryggja að fjölbreytt störf séu til staðar og að vinnumarkaðurinn horfi meira til fatlaðs fólks en nú er gert. Við þurfum með öðrum orðum að skapa fleiri störf á almennum vinnumarkaði sem henta fötluðu fólki og Project Search er einmitt slíkt verkefni.

Lykillinn er samstarf við fyrirtæki á almennum vinnumarkaði

Tilgangur verkefnisins er að þjálfa ungt fólk með fötlun til starfa á almennum vinnumarkaði, hjálpa því að finna vinnu og aðstoða það við að halda henni. Mikil áhersla er lögð á samstarf við fyrirtæki á almennum vinnumarkaði og fá einstaklingar sambland af fræðslu og starfsþjálfun í níu mánuði hjá samstarfsfyrirtækjum. Eftir að þeim tíma lýkur á starfsmaðurinn kost á að fá vinnu hjá fyrirtækinu eða öðru sambærilegu fyrirtæki ef hann hefur staðist þær kröfur sem til hans eru gerðar. Með verkefninu verður jafnframt unnið markvisst að því að vinnustaðamenning verði þannig að starfsmanni með fötlun sé tekið á jafningjagrundvelli og að hann tilheyri starfsmannahópnum frá upphafi ráðningar.

Hér er því um að ræða virkilega spennandi verkefni sem hefur sannað sig víða um heim og ég hlakka til að fylgjast með framgangi þess næstu misserin og hvort og þá hvernig við gætum mögulega byggt á því til lengri framtíðar í atvinnumálum fatlaðs fólks.

Höfundur er félags- og vinnumarkaðsráðherra.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×