Berge hefur þrálátlega verið orðaður við þjálfarastarfið hjá Kolstad undanfarna mánuði. Hann vildi stýra liðinu samhliða norska landsliðinu en það var ekki í boði hjá forráðamönnum norska handknattleikssambandsins. Berge þurfti því að velja á milli.
Berge hefur stýrt norska liðinu með frábærum árangri frá 2014. Undir hans stjórn vann Noregur meðal annars til silfurverðlauna á HM 2017 og 2019 og bronsverðlaun á EM 2020.
Meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við þjálfarastarfið hjá Noregi eru Glenn Solberg, þjálfari Evrópumeistara Svía, Jonas Wille, aðstoðarþjálfari Berge og þjálfari Kristianstad í Svíþjóð, Kristian Kjelling, þjálfari Drammen, Börge Lund, þjálfari Noregsmeistara Elverum, og Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV og hollenska landsliðsins. Erlingur hefur náð eftirtektarverðum árangri með Holland og á EM í janúar endaði hollenska liðið í 10. sæti.
Norðmenn hafa góða reynslu af Íslendingum en Þórir Hergeirsson hefur stýrt norska kvennalandsliðinu með frábærum árangri síðan 2009.
Berge stýrir norska landsliðinu í síðasta sinn á æfingamóti í Danmörku í næsta mánuði. Hann stýrði Norðmönnum í síðasta sinn á stórmóti þegar þeir unnu Íslendinga í leiknum um 5. sætið á EM. Með sigrinum tryggði Noregur sér sæti á HM 2023.
Forráðamenn Kolstad er mjög stórhuga og í fyrra kynnti liðið sex sterka leikmenn sem ganga til liðs við það á næstu mánuðum. Þetta eru íslensku landsliðsmennirnir Janus Daði Smárason og Sigvaldi Guðjónsson og norsku landsliðsmennirnir Sander Sagosen, Torbjørn Bergerud, Magnus Rød og Magnus Gullerud.