Vísbendingar eru um að straumhvörf séu að verða í stríðinu í Úkraínu. Úkraínuher hafi tekist að hrekja rússneskar hersveitir frá nálægjum bæjum og borgum norður af höfuðborginni Kænugarði. Zelenskyy Úkraínuforseti hefur greint frá því undanfarna daga að tekist hafi að eyða fjölda skriðdreka Rússa og önnur hernaðartól þeirra.
Úkraínskir hermenn hafa verið iðnir við að birta myndbönd á Twitter þar sem þeir sjást sitja fyrir rússneskum hersveitum sem virðast vera á undanhaldi.

Öðru máli gegnir hins vegar um hafnarborgina Mariupol í suðri þar sem 430 þúsund manns bjuggu fyrir innrás Rússa. Nú er talið að á bilinu eitt hundrað til 160 þúsund óbreyttir borgarinnar séu í borginni sem Rússar hafa gert látlausar loftárásir á í tæpan mánuð.
Fjörutíu og fimm rútur ásamt flutningabílum með mat og lyf voru sendar í átt að borginni í gær eftir að Rússar höfðu lofað Rauða krossinum að íbúum yrði hleypt út en rúturnar voru stoppaðar við varðstöð Rússa.

Iryna Vereshchuk aðstoðarforsætisráðherra segir að rúmlega sex hundruð manns hafi tekist að komast frá Mariupol á einkabílum.
„En því miður lagði innrásarherinn hald á hjálpargögnin. Það voru 14 tonn af matvælum og lyfjum. Þetta hefst upp úr samningum við Rússa. Þetta er niðurstaða loforða þeirra til aljþoða Rauða krossins um að þeir myndu tryggja öruggar leiðir út úr borginni,“ segir Vereshchuk.

Rússar segja árásarþyrlur Úkraínumanna hafa sprengt olíubirgðastöð þeirra um 40 kílómetra innan rússnesku landamæranna í morgun sem Úkraínumenn hafa hvorki staðfest né hafnað.
Vestrænir hernaðarsérfræðingar segja Putin Rússlandsforseta hafa vanmetið stöðuna. Þannig sagði Tony Radakin aðmíráll og yfirmaður breska hersins í dag að í raun væri Vladimir Putin Rússlandsforseti búinn að tapa stríðinu nú þegar.

„Hann er langt frá því að vera sá meistari atburðarásarinnar sem hann vill láta okkur halda. Hann hefur skaðað sjálfan sig með alvarlegu vanmati á mörgum sviðum,“ segir Radakin. Til að mynda hvað fullveldið, lýðræðið og þjóðarvitundin hafi skotið djúpum rótum í Úkraínu.
„Eins og allir valdstjórnendur lét hann blekkjast af eigin styrk og mögulegri skilvirkni rússneska hersins. Og að lokum sá hann ekki fyrir samstöðu og samheldni frjálsra ríkja í heiminum,“ segir yfirmaður breska hersins.