Metfjöldi hefur greinst smitaður af veirunni í Sjanhgæ síðustu daga en rúmlega 20 þúsund greinast á degi hverjum. Flestir eru einkennalausir en íbúar hafa verið reknir af heimilum sínum og íbúðum fólks breytt í sóttvarnahús.
Slakað var lítillega á sóttvörnum í vikunni og stórum hluta þeirra 25 milljóna sem búa í borginni hleypt út í fyrsta sinn í tvær vikur.
Mikil ringulreið greip um sig hvar fólk hljóp í verslanir til að kaupa matvæli, lyf og aðrar nauðsynjavörur. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Íbúar borgarinnar segja hættu á að fólk deyi úr hungri. Yfirvöld sjá um að skaffa mat og drykk með heimsendingum en sérfræðingar telja að birgðir minnki með degi hverjum.
Hinar skyndilegu lokanir í Sjanghæ hafa verið gagnrýndar harðlega af íbúum og þá sérstaklega vegna þess að fólk hafi ekki haft aðgang að matvælum og lyfjum eða aðstoðað aldraða ættingja sem búa einir.