KA menn unnu Leikni Reykjavík er liðin mættust á Dalvík þar sem heimavöllur KA á Akureyri er ekki tilbúinn. Það var lítið um opin marktækifæri en sigurmarkið skoraði Elfar Árni Aðalsteinsson með góðum skalla á 54. mínútu.
Varnarleikur Leiknis ekki til eftirbreytni en Elfar Árni var aleinn á markteig eftir fyrirgjöf Ásgeirs Sigurgeirssonar.
Nýliðar Fram fengu vægast sagt martraðarbyrjun er liðið mætti KR í Safamýrinni en líkt og KA er heimavöllur Fram ekki tilbúinn. Eftir aðeins 27. mínútna leik var staðan orðin 3-0 gestunum í vil.
Stefán Árni Geirsson skoraði eftir klaufagang í vörn Fram, Finnur Tómas Pálmason skoraði með föstum skalla eftir aukaspyrnu Atla Sigurjónssonar og Stefan Alexander Ljubicic skoraði er hann slapp einn í gegn eftir frábæran undirbúnings nafna síns.
Már Ægisson minnkaði metin í síðari hálfleik áður en varamaðurinn Sigurður Bjartur Hallsson kláraði dæmið fyrir KR. Þá varði Beitir Ólafsson vítaspyrnu Alberts Hafsteinssonar og sá til þess að KR vann 4-1 frekar en 4-2.
Besta deildin er á Stöð 2 Sport en nýtt keppnistímabil hefst 18. apríl. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.