Hinn tvítugi Gabríel Douane Boama slapp úr haldi í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrradag. Sérsveitarmenn höfðu í tengslum við leitina í gær afskipti af sextán ára pilti alls ótengdum málinu í strætisvagni. Móðir piltsins sagði svo frá því í morgun að aftur hefði lögregla haft afskipti af syni hennar, í þetta sinn í Bakarameistaranum í Mjóddinni í Reykjavík.
Myndbandi af atvikinu hefur verið dreift á samfélagsmiðlum í dag. Þar sjást lögregluþjónar koma inn í bakaríið þar sem móðir piltsins tekur á móti þeim í uppnámi. Í öðru myndbandi sem fréttastofa hefur undir höndum sjást samskiptin betur og þar tekur lögregluþjónn undir með móðurinni; þau sjái strax að pilturinn sé ekki strokufanginn.
Myndbandið sem komist hefur í dreifingu í dag má sjá í fréttinni hér fyrir neðan.
Lögregla hefur í kjölfar atvikanna tveggja verið sökuð um kynþáttafordóma; svokallaða „kynþáttamiðaða löggæslu“ (e. racial profiling), þ.e. þegar kynþáttur fólks einn og sér vekur upp grunsemdir eða aðgerðir af hálfu lögreglu.
Spurning hvort nauðsynlegt hafi verið að senda sérsveitina
Þessu er Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði og dósent í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri, ekki endilega sammála. Lögregla sé þarna að bregðast við ábendingum borgara.
„Kannski er þetta atvik eitt og sér ekki merki um einhvern rasisma í lögreglunni. En vegna þess að fólk sem er dökkt á hörund er enn í miklum minnihluta í Íslandi, og líka bara vegna þess að málið er þess eðlis, þá verður lögregla að sýna sérstaklega mikla varkárni í sínum aðgerðum þegar þau bregðast við ábendingum borgaranna.“
Þá blöskri henni kynþáttafordómarnir sem komið hafi fram í kommentakerfum í tengslum við leitina. Og hún setur spurningarmerki við aðgerðir sérsveitar.
„Það bara vekur óhug. Hvort að þessar aðgerðir hafi ekki verið aðeins of miklar. Hvort það hafi þurft alla þessa sérsveitarmenn. En hvort þetta atvik sé merki um rasisma í lögreglunni, ekkert endilega, myndi ég segja,“ segir Margrét.