Innblásturinn er fastur liður hjá Lífinu á Vísi þar sem rætt er við ólíkt fólk um hvað veitir því innblástur í tilverunni og hvaða ráðum þau luma á varðandi andlega heilsu.
Hver ert þú í þínum eigin orðum?
Hef bara ansi gaman af lífinu og fæ að starfa við það sem mér finnst skemmtilegt. Geri tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarp, kenni í Árbæjarskóla og rek tónlistarklasann Tónhyl með góðu fólki.
Hvað veitir þér innblástur?
Ég er svo heppinn að vinna mikið með ungu, skapandi fólki bæði í skólanum og í Tónhyl en það veitir mér innblástur alla daga.
Svo eru það líka aðrir sígildir hlutir eins léttar fjallgöngur, sundferðir, góðar bækur og bíó.
Hvað er þitt besta ráð til að næra andlega heilsu?
Besta ráðið er líklega bara að velja sér gott samferðafólk ásamt því að staldra stundum við og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða.
Mæli líka með því að finna leiðir til að bæði gefa af sér og reyna að gera heiminn aðeins betri á hverjum degi. Það skilar sér yfirleitt margfalt til baka.
Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?
Ég byrja oftast daginn á rækt eða sundi. Mæti síðan upp í skóla og kenni þar frábærum unglingum. Tek síðan seinni partinn upp í Tónhyl þar sem ég vinn í stúdíóinu að þeim verkefnum sem bíða mín þar.
Uppáhalds lag og af hverju?
Fyrsta lag sem kom upp í hugann var Slow dancing in a burning room sem er á þeirri frábæru plötu Continuum með John Mayer. Það er eitthvað svo gott og róandi andrúmsloft á allri þeirri plötu sem hafði mjög mótandi áhrif á mig sem tónlistarmann. En annars á ég mörg uppáhalds lög við ólík tilefni.
Uppáhalds matur og af hverju?
Það er hamborgarinn. Hamborgari og hamborgari er samt ekki það sama. Ég ég er að tala um svona stóra ameríska hamborgara með miklum osti.
Besta ráð sem þú hefur fengið?
Ef þú vinnur við það sem þér finnst skemmtilegt - þarftu aldrei að vinna framar.
Hvað er það skemmtilegasta við lífið?
Að taka þátt í að skapa nýja hluti með góðu fólki og læra eitthvað nýtt í leiðinni.