Dýr helsta ástríðan
Bærinn er staðsettur í dásamlegu umhverfi, nokkrar mínútur frá höfuðborginni. Nanna er klæðskeri og listakona en vinnur í dag við drauma starfið sem dýranuddari og er einnig með hunda og kattarækt.
„Þetta er besta vinna í heimi,“
segir hún um dýranuddið. Hennar helstu viðskiptavinir eru hundar og þá helst gamlir hundar. Einnig eru eineigðir og þrífættir kettir búnir að mæta í nudd og ekki má gleyma naggrísnum
Slítandi starf
Klæðskera starfið segir hún hafa verið slítandi og kom sá tímapunktur að hún gat ekki sinnt því lengur og þurfti að hugsa sinn gang.
„Ég gat hvorki borgað af húsinu né séð um nokkuð viðhald sem auðvitað maður þarf að gera með svona eign,“
segir hún um húsið í Hafnarfirði þar sem hún bjó í tuttugu ár og var með saumastofu í kjallaranum. Hún fór í gegnum skilnað sem var áfall fyrir hana en segir í dag að það hafi verið það besta sem gat gerst.
„Ég er ekki viss um að ég væri að gera það sem að mig langar, eins og ég er að gera núna alla daga frá morgni til kvölds, ef að ég væri ennþá gift kona inni í Hafnarfirði.“

Friður og fallegt útsýni
Fyrir tilviljun var hún að keyra um Vatnsleysuströnd og fékk tilfinninguna um að þetta væri staðurinn sinn og fór strax að leggja drög að flutningunum. „Ég gat borgað upp þó nokkuð mikið af skuldum og lifði hamingjusöm til æviloka,“ segir hún og hlær.
Hún er hægt og rólega búin að vera að gera upp húsið, byggja sér pall og ákvað að fá sér hænur á heimilið. Hún segist aldrei hafa getað ímyndað sér það að geta búið í sveit en vera samt aðeins tuttugu mínútur að komast í vinnuna í borginni á morgnana.
„Það er bara ég, fuglarnir og dýrin. Enginn með partý á kvöldin og það er ekkert sem truflar.“
Nanna lifir nú einföldu lífi í sveitinni eftir að hafa losað sig við búslóðina, endurnýtir og vill ekki vera með of mikið af dóti. Hún segist aldrei hafa verið hamingjusamari. Vala Matt fór og heimsótti Nönnu en innslagið má sjá í heild sinni hér að neðan.