Fyrsti borgarstjórnarfundur kjörtímabilsins hefst klukkan tvö í dag. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að á þeim fundi skipi meirihlutaflokkarnir og væntanlega minnihlutaflokkarnir einnig fulltrúa í nefndir og ráð. Þar með birtist verkaskipting meirihlutans á komandi kjörtímabili.
Eitt af áherslumálum nýja meirihlutans er að flýta uppbyggingu húsnæðis í Keldnaholti, sem fyrri meirihluti taldi erfitt að gera án þess að borgarlína kæmi þangað samtímis.

„Það er talað um að það þurfi að flýta borgarlínu í leiðinni. Við leggjumst þá bara öll á þær árar. Vegna þess að samgöngumálin þurfa auðvitað að ganga upp á nýjum byggingarsvæðum,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Meirihlutinn vilji sem allra fyrst kynna skipulagssamkeppni um svæðið í heild sinni þannig að það verði af hámarksgæðum og uppfylli væntingar til Keldnalandsins og holtsins. Í sáttmálanum væri talað um fyrstu breytingar í alls kyns verkefnum sem verði sýnileg á þessu ári.
„En ég á von á að núna setjist nýr meirihluti yfir verkefnin hvert af öðru. Kynni síðan nákvæmari áætlanir á hverju sviði eftir því sem þessu vindur fram,“ segir Dagur.
Eitt þeirra mála sem eru í óvissu milli borgarinnar og yfirvalda eru áform um uppbyggingu á nýju hverfi í Skerjafirði í nágrenni Reykjavíkurflugvallar. Þar talar nýr meirihluti um að tryggja þurfi flugöryggi á flugvellinum en Ísavia og stjórnvöld tala um að tryggja verði rekstraröryggi. Dagur segir hugtökin skyld.
„Næsta skref í þessu er áhættumat sem Ísavia gerir með tilliti til vindafars. Undir því eiga að koma mótvægisaðgerðir sem við munum væntanlega setjast yfir með þeim og vinna þetta í góðu samstarfi,“ segir borgarstjóri.
Fram hafi komið í fyrra mati Ísavia að það væri næsta skref. Dagur treystir sér ekki til að meta hvort þetta tefji byggingarframkvæmdir í Skerjafirði en hann telji vilja allra að húsnæðisuppbygging í borginni gangi eins hratt og vel og hægt væri.
Hvað Sundabraut varðar vilji nýr meirihluti hefja umhverfismat og á sama tíma leiðarval og samráð í tengslum við hana sem fyrst. Bæði göng og brú komi enn til greina samkvæmt því samkomulagi sem meirihlutinn vísi til við samgönguráðherra.
„Þannig að það er vilji allra að besta leiðin verði fundin til að keyra upp framkvæmdina. Og í eins góðri sátt við umhverfið og hægt er,“ segir Dagur B. Eggertsson.