Viðræður hafa staðið yfir við karlmann á sjötugsaldri frá því um átta leytið í morgun eftir að tilkynning barst um skothvelli við fjölbýlishús við Miðvang í morgun. Maðurinn er grunaður um að hafa skotið á kyrrstæðan bíl á bílastæði á milli blokkarinnar og leikskólans Víðivalla. Hann er talinn einn í íbúðinni.
Fjölmennt lið vopnaðra sérsveitarmanna hafa verið á vettvangi frá því í morgun. Þá hefur lögregla notað dróna til að ná yfirlitsmyndum og vélmenni til að nálgast íbúðina. Ekki liggur fyrir af hvers konar skotvopi maðurinn hleypti í morgun.
„Við höfum nægan tíma. Takmarkið er að fá manninn út heilan á húfi,“ sagði Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í Hafnarfirði, í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Sagði hann lögreglu telja vettvanginn algerlega tryggan en stórt svæði hefur verið girt af í kringum blokkina. Íbúar í fjölbýlishúsinu og nærliggjandi húsum er gert að halda sig þar á meðan á umsátrinu stendur.
Sautján börn og tuttugu og einn starfsmaður var mættur á leikskólann þegar umsátrið hófst í morgun. Skúli sagði þau öll örugg hlémegin í leikskólabyggingunni. Þeim hafi verið færður matur núna í hádeginu.