Ragnar Frank Árnason kom í heiminn 16. nóvember í fyrra og er því ekki orðinn átta mánaða gamall. Árni Vilhjálmsson fékk að koma með barn þeirra Söru þegar liðið mætti til Englands.
Eftir æfingaferð til Póllands og Þýskalands voru endurfundir hjá fjölskyldunni í Crewe.
„Það var geggjað. Það er æðislegt að KSÍ og Steini hafi skilning fyrir því að ég fengi að taka Ragnar með. Ég tók hann ekki með til Póllands og Þýskalands. Ég ákvað það,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag.
„Að getað fengið hann núna til Englands er æðislegt. Það er erfitt að vera frá honum of lengi. Þau gerðu bara allt til þess að mér liði vel,“ sagði Sara Björk.