Þetta kom fram í máli Antonio Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, þegar fulltrúar 40 þjóða hittust til að ræða ástandið í loftlagsmálum á mánudag.
„Hálf heimsbyggðin er á hættusvæðinu, þar sem flóð, þurrkar og miklir öfgar í veðri ógna lífi fólks. Engin þjóð er ónæm en samt sem áður höldum við áfram að bæta í framleiðslu jarðefnaeldsneytis,“ sagði Guterres.
„Við höfum val. Sameiginlegt átak eða sameiginlegt sjálfsvíg. Það er í okkar höndum,“ bætti hann við.
Skógareldar hafa geisað víðs vegar í Evrópu og Norður-Ameríku. Í Suður-Ameríku, stendur fornborginni Macchu Picchu ógn af slíkum eldum. Ofsahitinn hefur slegið mörg hitamet undanfarna mánuði og óttast er að hitinn nái 40 gráðum á Englandi í dag. Þá ógna eldar einnig svæðum á Spáni, Grikklandi og í Króatíu.
Fulltrúar ríkja heims munu í dag funda í Berlín í tvo daga á svokölluðum loftlagsfundi Petersberg til að ræða veðuröfga sem og hækkandi hrávöruverð. Fundurinn er sagður síðasti séns þjóðarleiðtoga til að komast að samkomulagi um markmið til að draga úr losun og koma böndum á hamfarahlýnun fyrir leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna, Cop27, í Egyptalandi í nóvember.